Félagsmenn FEBK sem heimsóttu Prag í fjóra daga 18.-22. maí eru afar ánægðir með vel heppnaða ferð. Prag er einstaklega glæsileg borg, með sína miklu sögu og einstaklega fallegar byggingar og af mörgu talin til fegurstu borga Evrópu. Borg menningar, mennta og lista. Elstu hverfin, þar á meðal kastalinn í Prag, eru á heimsminjaskrá UNESCO. Margt var skoðað og mikil upplifun að sjá þessa fallegu borg.
Farið var út fyrir borgina í smá sveitaferð og kíkt m.a. í kristalverksmiðju. Næsta dag var gengið um gamla bæjarhlutann og einnig gengið að Gyðingahverfinu. Allar þessar fallegu byggingar eru ógleymanlegar og gaman að vera á Staromestske Námesti-torginu ( gamla torginu) og sjá m.a. Stjörnuklukkuna frægu, sem er helsta kennileiti á torginu. Wenceslas-torgið, Þjóðminjasafnið, Karlsbrúna og glæsilega listaverkið sem er höfuðið á Kafka og svo margt fleira áhugavert var skoðað. Síðasta daginn var sigling á Moldá, þar sem boðið var upp á frábærar veitingar og hópurinn naut þess að sigla m.a. undir Karlsbrúna.
Vel heppnuð ferð þar sem hópurinn naut samverunnar og einnig fengum við góðan mat og auðvitað var smakkaður hinn frægi bjór Tékka.
Margrét Halldórsdóttir skipulagði ferðina og var fararstjóri og það fór henni mjög vel úr hendi. Leiðsögn var í höndum Mörtu, sem er frá Tékklandi og býr í Prag og talar frábæra íslensku sem gerði ferðina ógleymanlega.
Smellið á mynd til að skoða stærri útgáfu.