Lög félagsins

1. gr.
Nafn og heimili
Félagið heitir „Félag eldri borgara í Kópavogi“, skammstafað FEBK. Heimili þess og varnarþing er í Kópavogi.
2. gr.
Hlutverk
Tilgangur og hlutverk félagsins er að gæta hagsmuna og réttinda eldra fólks í Kópavogi í hvívetna og vinna að hagsmunum aldraðra. Þessum tilgangi hyggst félagið ná með því að:
      1. Vinna að umbótum að efnahagslegri afkomu, öryggi og góðu umhverfi.
      2. Beita sér fyrir og stuðla að úrbótum í húsnæðismálum aldraðra, án þess að standa sjálft í íbúðarbyggingum.
Efla félagsvinnu og tómstundaaðstöðu eldri borgara í Kópavogi, m.a. með því að skipuleggja námskeið, fræðslufundi, skemmtanir, ferðalög og aðra afþreyingu. Stuðla að sérdeildum innan félags sem efla tómstundastarf. Þær geta starfað sjálfstætt eftir eigin samþykktum og með staðfestingu frá stjórn FEBK. Hvetja og leiðbeina þeim er náð hafa sextugsaldri til ástundunar ýmissa verka og tómstundaiðju, líkamsþjálfunar og útivistar.
      3. Fylgjast með og stuðla að því að aldrað fólk hafi sem greiðastan aðgang að heilbrigðis- og þjónustustofnunum og opinberum byggingum og njóti góðrar fyrirgreiðslu og auðveldrar aðkomu. Félagið beiti sér fyrir úrbótum í ferilmálum aldraðra og hreyfihamlaðra.
      4. Efla og standa vörð um lífeyrisréttindi aldraðra bæði í lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun ríkisins og veita fólki upplýsingar um réttindi og skyldur á þeim vettvangi og annarra tryggingarmála.
      5. Leita samráðs og samstarfs við aðra aðila sem vinna að hagsmunamálum aldraðra í Kópavogi. Fylgjast með lagasetningu Alþingis sem varðar hagsmuni aldraðra og beita áhrifum sínum með aðild að Landsambandi eldri borgara, LEB í viðræðum, samstarfi og samningum við stjórnvöld.
      6. Félagið verði viðurkenndur tillögu- og umsagnaraðili um málefni aldraðra í bæjarstjórn Kópavogs, Félagsmálastofnun Kópavogs og í nefndum og ráðum sem fjalla um öldrunarmál á vegum bæjarins. Á aðalfundi skal tilnefna fulltrúa í öldungaráð skv. L. 125/1999.
3. gr.
Félagsaðild
Rétt til að gerast félagi á hver sá sem hefur náð 60 ára aldri, einnig makar þeirra þótt yngri séu. Einstaklingar, félög, fyrirtæki og stofnanir geta orðið styrktarfélagar.  Haldin skal skrá yfir fullgilda greiðandi félagsmenn sem lögð verði til grundvallar félagslegum réttindum innan FEBK. Félagi sem skuldar árgjald í tvö ár skal skráður úr félaginu ef hann  er ekki orðinn níræður. Félagið er óháð stjórnmálaflokkum og hlutlaust í trúmálum.
4. gr.
Félagsgjald
Árgjald skal ákveðið á hverjum aðalfundi fyrir þar næsta starfsár.Þeir sem ganga í félagið á síðasta ársfjórðungi almanaksársins greiði hálft gjald. Níutíu ára og eldri greiða ekki félagsgjald.
Bráðabirgðaákvæði: Árgjald fyrir árin 2023 og 2024 ákvarðist á aðalfundi í mars 2023.
5.gr.
Aðalfundur
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda fyrir 1. apríl ár hvert og boða til hans með auglýsingu í blöðum og/eða rafrænt með nægum fyrirvara. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi. Aðeins skuldlausir félagar hafa atkvæðisrétt á aðalfundi. Samþykktum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi og þarf tvo þriðju atkvæða til þess, enda hafi tillaga um breytingar á samþykktum félagsins verið getið í fundarboði og þær liggja frammi á skrifstofu félagsins tveimur vikum fyrir aðalfund. Aðalfundur er löglegur hafi löglega verið til hans boðað.
Þessir liðir skulu vera á dagsskrá aðalfundar:
      1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
      2. Skýrsla stjórnar.
      3. Endurskoðaðir reikningar félagsins. Þeir skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins viku fyrir aðalfund.
      4. Kosning stjórnar og varastjórnar og sé formaður kjörinn sérstaklega.
      5. Kosning tveggja félagslegra skoðunarmanna og eins til vara.
      6. Afgreiðsla tillagna og erinda sem lögð eru fyrir fundinn. Slíkar tillögur og erindi ber að senda stjórn félagsins skriflega minnst viku fyrir aðalfund.
      7. Önnur mál.
Tillögur uppstillingarnefndar og annara um stjórnarmenn skulu liggja frammi á skrifstofunfélagsins viku fyrir aðalfund.
6.gr.
Trúnaðarmenn félagsins
Í stjórn félagsins skulu sitja sjö menn og þrír til vara. Stjórn félagsins skal kosin til tveggja ára í senn, þannig að annað hvert ár er kosinn formaður og þrír menn og fyrsti varamaður.
Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skal stjórnin skipta með sér verkum og velja úr hópi aðalmanna í stöður varaformanns, ritara og gjaldkera.
Stjórn félagsins skipar þrjá menn í uppstillingarnefnd og tilnefnir formann hennar. Uppstillingarnefndin skal óska eftir uppástungum, leita samþykkis viðkomandi og gera tillögur um menn til kjörs í stjórn.
Stjórn félagsins skal skipa umsjónarmenn og nefndir til að annast tiltekna þætti félagsins. Slíkir aðilar heyra beint undir stjórn félagsins og starfa á ábyrgð hennar. Formenn nefnda eiga rétt á setu á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétti þegar mál sem snerta störf þeirra eru á dagskrá. Stjórn félagsins er heimilt að greiða laun fyrir slík unnin störf og aðra viðeigandi aðkeypta þjónustu.
7.gr.
Fundir
Stjórn félagsins boðar til almennra félagsfunda. Félagsfundi skal boða með minnst viku fyrirvara í auglýsingu rafrænt eða bréflega. Formaður boðar til stjórnarfunda með tryggilegum hætti. Hann boðar bæði aðal- og varamenn. Varamenn hafa málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt nema þeir taki sæti aðalmanns. Rita skal fundargerðir allra stjórnarfunda.
8.gr.
Félagsslit
Nú kemur fram tillaga um að félaginu skuli slitið og skal hún þá sæta sömu meðferð og tillaga um breytingar á samþykktum félagsins. Við slit félagsins skulu eignir þess renna til almennra hagsmunamála aldraðra í Kópavogi.
Þannig samþykkt á aðalfundi 21. mars 2023.