Þriðjudaginn 24. júní lögðu 31 félagsmenn FEBK af stað í þriggja daga ferð um Norðurlandi eystra. Gert var stutt stopp í Borgarnesi. Næsta stopp var á Blönduósi þar sem við fengum léttan hádegisverð á veitingastaðnum B&S og héldum síðan áfram til Akureyrar. Þar var gert gott kaffistopp í Lystigarðinum. Við vorum komin á Hótel Narfastaði í Reykjadal um klukkan 17:30.
–
Það eru hjón sem reka hótelið og áður en hópurinn yfirgaf rútuna kom eiginmaðurinn, Unnsteinn, inn í rútuna og bauð hópinn velkominn og fór í stuttu máli yfir tilkomu hótelsins, en áður fyrr hýstu þessar byggingar sauðfé. Þar beið okkar framúrskarandi þríréttað hlaðborð. Matur og gistiaðstaða á Narfastöðum var í alla staði framúrskarandi og voru ferðafélagar mjög ánægðir. Það var samdóma álit allra að afar erfitt verði að toppa matinn á Narfastöðum.
–
Nú var kominn nýr dagur og þá beið okkar góð ferð um Demantshringinn þar sem er að finna náttúruperlur eins og Dettifoss og Dimmuborgir. Ferðanefnd FEBK var svo lánsöm að fá til liðs við okkur frábæran leiðsögumann sem mætti á hótelið strax að morgni annars dags. Rósa María Sigurðardóttir leiðsögumaður var happafengur, með margra ára reynslu og var í alla staði frábær. Að loknum góðum ferðadegi þá beið okkar góður matur og gott rúm á Narfastöðum.
–
Á fimmtudeginum var lagt af stað frá hótelinu um kl. 9:00. Komum við og heilsuðum upp á Goðafoss. Þegar komið var á Akureyri fórum við í Flugminjasafnið þar sem margt fróðlegt var að sjá.
–
Við gerðum góðan stans við Þrístapa, en það er aftökustaðurinn þar sem síðasta aftakan á Íslandi fór fram 12. janúar 1830, þegar hálshöggvin voru þau skötuhjú Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson fyrir að drepa Natan Ketilsson bónda á Illugastöðum á Vatnsnesi. Meðan við ferðalangarnir dvöldum á þessum sögufræga stað var gott veður og við notuðum tækifærið til að láta bílstjóra okkar taka mynd af hópnum og einnig var á boðstólum kveðjuskál.
–
Bílstjóri í ferðinni var Bjartmar Leósson og tilheyrir hann hópi eðalbílstjóra og fær hann hæstu einkunn frá hópnum. Undirritaður var farastjóri.
–
Að lokum vil ég þakka samferðafólki mínum fyrir góða samveru og einstaklega góða ferð.
Baldur Þór Baldvinsson.
Smelltu á mynd til að skoða hana stærri.