Aðalfundur FEBK 5. mars 2025
Margrét formaður setti fundinn og stakk upp á Baldri sem fundarstjóra og Stefaníu sem ritara. Baldur þakkaði traustið og kynnti fyrsta lið sem var skýrsla formanns.
1. Skýrsla formanns
Margrét flutti greinargóða skýrslu formanns og fór yfir starf sl. árs og taldi upp margs konar afþreyingu sem eldri borgurum stendur til boða. Hún fór líka yfir upplýsingaflæðið sem er miklu meira en áður var og auðvelt að finna hvað er í boði frá degi til dags. Margrét nefndi einnig vel heppnaðar ferðir á árinu bæði innanlands
og utan og fjölmargt annað, s.s. leikhúsferðir og tónleika að ógleymdum „opnum húsum“ sem hafa verið vel sótt. Að lokum þakkaði formaður öllum þeim sem hún hefur kynnst og/eða starfað með undanfarin tvö ár.
2. Reikningar
Sigrún fór yfir reikninga og í ljós kom að félagið stendur fjárhagslega afar vel. Engar umræður eða spurningar voru um skýrslu formanns eða reikninga félagsins og voru reikningarnir samþykktir samhljóða.
3. Árgjald
Árgjaldið verður óbreytt, kr. 4.000, fyrir árið 2026
4. Kosningar
Baldur fór yfir hverjir sitja áfram í stjórn en ný stjórn er þannig skipuð:
Stjórn FEBK 2025 – 2026
Formaður: Geir Þórðarson
Aðrir í aðalstjórn
Sigrún Þorláksdóttir, gjaldkeri
Stefanía Björnsdóttir, ritari
Auður Gísladóttir
Guðni Ásgrímsson
Guðrún Pétursdóttir
Steini Þorvaldsson
Varastjórn
Jóhanna Hafliðadóttir
Katrín Pálsdóttir
Kolbrún Óskarsdóttir
5. Önnur mál
Geir, nýkjörinn formaður, ávarpaði fundinn og þakkaði traustið. Hann gerði grein fyrir upplýsingamiðlum FEBK, heimasíðunni, Facebook og fréttapóstinum sem sendur er á netföng félagsmanna. Hann ræddi um tilgang FEBK sem væri m.a. að koma í veg fyrir einsemd og einveru með margvíslegum tilboðum um afþreyingu. Ræddi sérstaklega um „opnu húsin“ og stefnt væri að því að hafa félagsmiðstöðvarnar opnar alla laugardaga (ekki til skiptis í jábakka og Gullsmára). Geir þakkaði fráfarandi stjórnarmönnum og afhenti Margréti blómvönd. Fulltrúi Helga Ágústssonar tók við blómvendi fyrir hans hönd.
6. Ferðir innanlands og utan
Baldur sagði frá ferð á slóðir Agnesar og Friðriks í V – Húnavatnssýslu 2. -4. maí n.k. og hvatti fólk til að skrá sig en aðeins er pláss fyrir 16 manns í þessa ferð.
Hann sagði líka frá ferð um N- Austurland 24. – 26. júní. Gist verður á Narfastöðum í
Reykjadal og síðan á að aka Demantshringinn svokallaða 25. júní. Fara átti í þessa ferð í september sl. haust en varð að fella hana niður þá vegna slæmrar veðurspár.
Baldur nefndi einnig ferð á sunnanverða Vestfirði. Báðar síðarnefndu ferðirnar eru ekki alveg full mótaðar og því ekki hægt að segja nánar frá þeim.
Dagsferð um Reykjanesið verður seint í maí. Fleiri ferðir voru nefndar en eru enn á stigi skipulagningar.
Margrét er mjög dugleg að skipuleggja ferðir til útlanda. Hún kom næst og sagði frá því að ferðin til Varsjá væri uppseld en hvatti fólk til að skrá sig á biðlista því að alltaf gæti eitthvað losnað.
Svo kynnti hún fjögurra nátta ferð til Alicante 9. – 13. maí þar sem
hún verður fararstjóri. Margt er að sjá í Alicante, vel staðsett hótel og töluvert innifalið.
Að lokinni kynningu á ferðum kom Geir, þakkaði samstarfið, bauð upp á kaffi og súkkulaðikex og sleit fundi.
Fundi slitið kl. 16:52.
Fundargerð hér: Aðalfundur 5. mars 2025