Félagsheimili eldri borgara um helgar

Þann 8. október sl. sendi Baldur Þór Baldvinsson, fulltrúi FEBK í öldungaráði, bréf til bæjarstjórnar Kópavogs þar sem óskað var eftir stuðningi Kópavogsbæjar við það verkefni að hafa félagsmiðstöðvar eldri borgara í Kópavogi opnar um helgar.

Úrdráttur úr bréfinu: “Eitt af baráttumálum Félags eldri borgara í Kópavogi er að útrýma einsemd og einveru eldra fólks eins og mögulegt er. Óumdeilt skref í þá átt er að hafa félagsheimili eldri borgara opin um helgar, en þær eru kvíðaefni hjá mörgum, sérstaklega þeim sem búa einir. Eftir að hafa fylgt þessu máli eftir við bæjaryfirvöld með viðræðum, bréfaskriftum og loks undirskriftasöfnun tókst að koma því til leiðar að félagsmiðstöðvar eldri borgara í Kópavogi voru opnar sl. vetur einn laugardag í mánuði hver stöð”.

Erindið var tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar 17. okt. sl. Erindið var samþykkt og barst félaginu eftirfarandi bréf.

Sæll Baldur og takk fyrir bréfið. Það er ánægjulegt að heyra hve vel tókst til með tilraunaverkefni um helgaropnanir en við höfum svo sannarlega ekki gleymt því. Það er fullur stuðningur innan bæjarráðs við að halda áfram með verkefnið og verður fjármagn tryggt áfram fyrir árið 2025. Fjármagnið verður vistað hjá forstöðumanni félagsstarfsins, Stefáni Arnarsyni sem ráðstafar því í þágu helgaropnana í samráði við Félag eldri borgara í Kópavogi. Nánari útfærsla er í höndum forstöðumannsins. Bestu kveðjur. Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri.

Það er fagnaðarefni að þessi áfangi hafi náðst og hafi bæjarstjórn Kópavogs þökk fyrir. Rétt er samt að minna á að enn má gera betur þar sem bara ein félagsmiðstöð er opin á hverjum laugardegi.