Aðgengi og lífsgæði eldri borgara í stafrænni framtíð: Hvað getum við gert betur?

Ísland færist hratt í átt að stafrænum heimi þar sem samskipti við hið opinbera fara fram á vettvangi eins og heilsuvera.is og island.is. Þó að þessi þróun bjóði upp á aukin lífsgæði fyrir marga eru hópar í samfélaginu sem eiga erfitt með að fóta sig í stafrænni veröld. Hér vil ég nefna sérstaklega eldra fólk, hóp sem situr gjarnan eftir þegar kemur að tæknilausnum og samfélagsþjónustu.

Við fjölskyldan njótum þeirra forréttinda að hafa rými til að áttræður faðir minn geti búið með okkur. Í þeirri sambúð sé ég daglega hvernig hann, eins og margir í hans stöðu, á erfitt með að nýta sér stafrænar lausnir. Það þarf að taka utan um heldra fólkið okkar svo það geti nýtt sér þá þjónustu og þann stuðning sem það á rétt á.

Mikilvægi tengingar við samfélagið

Við megum ekki gleyma því að eldra fólkið okkar er auðlind í samfélaginu. Þetta er hópurinn sem byggði upp velferðar- og heilbrigðiskerfið sem við búum við í dag.

Spurningar til bæjaryfirvalda

  • Er boðið upp á markvissa tækniþjónustu fyrir eldra fólk á landsvísu?
  • Er til staðar kerfi sem hjálpar þeim sem ekki skilja eða treysta sér til að nota þjónustu eins og island.is og heilsuvera.is?
  • Eru nemendur á unglingastigi og í framhaldsskóla hvattir til að vinna eða læra með eldri borgurum, t.d. í formi sumarstarfa eða valnáms?

Aðgerðir til að bæta stöðu eldri borgara í stafrænni framtíð

Tæknilæsi og stuðningur: Námskeið og heimaþjónusta. Það þarf að tryggja regluleg námskeið í tæknilæsi fyrir eldri borgara, bæði í félagsmiðstöðvum og sem hluta af heimaþjónustu.

Samfélagsleg tenging milli kynslóða
Það hefur sýnt sig að samskipti milli kynslóða hafa gríðarlega jákvæð áhrif. Af hverju ekki að skipuleggja verkefni þar sem unglingar eða stúdentar koma í heimsókn til eldri borgara til að kenna á tækni og aðstoða við hversdagsleg tæknileg vandamál? Þetta gæti verið sumarstarf, valnám eða sjálfboðavinna.

Jafnræðisreglan og réttur til menntunar alla ævi. Samkvæmt Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna á hver einstaklingur rétt á menntun alla ævi. Þar af leiðandi ættu heldri borgarar að fá alla þá aðstoð til að læra á þessa nýju tækni.

Ef við ætlum að vera samfélag sem virðir jafnræði og tryggir lífsgæði fyrir alla, megum við ekki vanrækja þau sem þurfa mest á hjálp að halda og tryggja að þau einangrist ekki í tæknivæddum heimi.

Því hvet ég Kópavogsbæ til að skoða þessi mál af alvöru og hefja vinnu við lausnir sem nýtast öllum aldurshópum, ekki síst þeim sem hafa byggt samfélagið okkar upp.

Hildur María Friðriksdóttir

Höfundur er fulltrúi Samfylkingar í jafnréttis- og mannréttindaráði Kópavogs.

Greinin birtist í Kópavogspóstinum 5. des. 2024.