Félagsheimili eldri borgara í Kópavogi um helgar.
Eitt af baráttumálum Félags eldri borgara í Kópavogi er að útrýma einsemd og einveru eldra fólks eins og mögulegt er. Óumdeilt skref í þá átt er að hafa félagsheimili eldri borgara opin um helgar, en þær eru kvíðaefni hjá mörgum, sérstaklega þeim sem búa einir. Eftir að hafa fylgt þessu máli eftir við bæjaryfirvöld með viðræðum, bréfaskriftum og loks undirskriftasöfnun tókst að koma því til leiðar að félagsmiðstöðvar eldri borgara í Kópavogi voru opnar sl. vetur einn laugardag í mánuði hver stöð.
Í viðtali við bæjarstjóra í Kópavogspóstinum 15. febrúar sl. fagnaði hún því mjög að þetta “tilraunaverkefni” væri komið á dagskrá. Var hún m.a. spurð hvort kæmi til greina “ef vel gengur að bjóða upp á fleiri opnanir um helgar” og svaraði bæjarstýra svo að mögulega yrði “í náinni framtíð boðið upp á fleiri viðburði´´ í samstarfi við Félag eldri borgara í Kópavogi. Aðspurð um kostnað taldi hún hann “óverulegan”, “ef vel tekst til og við sjáum bætta andlega og líkamlega heilsu”.
Í stuttu máli reyndist “tilraunaverkefnið” standast allar væntingar. Fullt var út úr húsi þá laugardaga, sem félagsmiðstöð var opin, og ekki mögulegt að draga aðra ályktun en þá að “vel hefði tekist til”. Gleðin, ánægjan og margfaldar þakkir, sem fylgdu, er ekki hægt að túlka öðruvísi en til marks um “bætta andlega heilsu”.
Nú á haustdögum, þegar dagskrá félagsheimila er að hefjast, kemur í ljós, þvert á væntingar, að bæjarstjórn Kópavogs hefur dregið í land og í raun sagt sig frá “tilraunaverkefninu” sem svo mjög var lofað fyrir nokkrum mánuðum! Í núgildandi fjárhagsáætlun er ekki stafkrókur um verkefnið og engin orð um áframhaldandi “samstarf” við Félag eldri borgara, hvað þá um “fleiri viðburði”. “Óverulegi kostnaðurinn” af starfsmanni í eldhúsi félagsheimilanna, sem kostaður var af Kópavogsbæ, samtals 12 klukkustundir á mánuði, er ekki í fjárhagsáætlun og þar með aðkoma bæjarstjórnar farin. Verkefnið, sem svo var rómað og mært af framkvæmdastjóra bæjarstjórnar, er því alfarið komið í hendur Félags eldri borgara í Kópavogi. Hefur “tilraunaverkefnið” virkilega gleymst hjá bæjarfulltrúum, nánast á fyrstu metrunum?
Tilgangur þessa bréfs er að minna á “tilraunaverkefnið” og fara fram á áframhaldandi samstarf um það við bæjarstjórn Kópavogs. Að Kópavogsbær styrki verkefnið m.a. á þann hátt að greiða áfram “óverulegan” kostnað af því að hafa félagsheimili opin um helgar fyrir eldri borgara og verkefnið verði með í fjárhagsáætlun fyrir árið 2025. Félag eldri borgara í Kópavogi fer þess á leit við ykkur, ágætu bæjarfulltrúar, að þið sýnið hug ykkar til eldri borgara í verki, hlustið og takið mark á því sem 700 manns sýndu með undirskriftum sínum sl. vor.
Þess skal getið að undirritaður sótti um styrk fyrir hönd FEBK úr forvarnasjóði hjá Menntasviði Kópavogs. Hlutverk sjóðsins er m.a. að bæta andlega líðan, heilsu og sjálfsmynd barna og eldri borgara en tilgangurinn með því að hafa félagsheimilin opin um helgar fyrir eldri borgara er einmitt að eyða einsemd og einveru og bæta andlega heilsu. Umsókninni var vel tekið og fékk FEBK styrkinn. Kunnum við okkar bestu þakkir til stjórnenda sjóðsins.
Virðingarfyllst
f.h. Félags eldri borgara í Kópavogi og fulltrúi FEBK í öldungaráði
Baldur Þór Baldvinsson
Afrit sent öllum kjörnum bæjarfulltrúum svo og bæjarblöðum.