Félagsmiðstöðvar opnar um helgar

Kópavogspósturinn 16. febrúar 2024.

Félagsmiðstöðvar eldri borgara í Kópavogi að Gjábakka, Gullsmára og í Boðanum bjóða upp á helgaropnun einn laugardag í mánuði á hverri stöð, en Kópavogsbær samþykkti í fjárhagsáætlun sinni fyrir árið 2024 að gera tilraun með helgaropnun á félags miðstöðvunum. Fyrsta helgaropnunin var sl. laugardag í Gullsmára og næsta laugardag verður opið í Gjábakka og svo í Boðanum 24. febrúar

Félag eldri borgara í Kópavogi hefur í nokkurn tíma óskað eftir því að öllum félagsmiðstöðvum verði haldið opið allar helgar, en markmiðið er m.a. að bæta andlega heilsu aldraðra og draga úr félagslegri einangrun.
Kópavogspósturinn heyrði í Jóni Atla Kristjánssyni formanni öldungaráðs Kópavogs, en ráðið starfar í umboði bæjarráðs og er markmið þess að bæta þjónustu við aldraða í Kópavogi.

Erum stolt að leiða þetta mál

Félag eldri borgara í Kópavogi hefur óskað eftir því í tölverðan tíma að félagsmiðstöðvarnar verði opnar allar helgar og þetta varð niðurstaðan, að bjóða upp á tilraunaopnun einn laugardag í mánuði á hverri félagsmiðstöð. Ertu ánægður með að þetta tilraunaverkefni sé komið af stað og fyrirkomulag þess? ,,Já ég er ánægður með þessa niðurstöðu, en það er ekkert leyndarmál að við vildum meira. Lífið hefur kennt okkur eldra fólki að við fáum ekki allt sem við viljum. Með þessu verklagi sjáum við áhuga okkar fólks og lærum um leið hvað gengur og ekki. Um leið erum við stolt að leiða þetta mál, því sveitarfélögin í kringum okkur, eru ekki með opið á helgum,” segir Jón Atli.

Öldungaráð! Fv. Baldur Þór Baldvinsson, Margrét Halldórsdóttir formaður FEBK, Sigrún Hulda Jónsdóttir bæjarfulltrúi, Jón Atli Kristjánsson formaður öldungaráðs, Sigurbjörg Erla Egilsdóttir bæjarfulltrúi. Á myndina vantar Huldísi Mjöll Sveinsdóttur, fulltrúi heilsugæsu höfuðbogarsvæðisins
og Stefaníu Björnsdóttur.

Glatt á hjalla í Gullsmára

Nú var fyrsta helguropnunin sl. laugardag í Gullsmára, hvernig gekk hún? ,,Það mættu um 60 manns á opnunina og það var glatt á hjalla. Við lærðum boccia sem er hin ágætasta íþrótt og einhver stakk upp á því að skora á bæjarstjórnina í boccia. Um 20 manna hópur fór í Si gong hjá Sigurði Þorsteinssyni, en eins og alltaf er maður manns gaman og þetta tókst allt vel.”

Boccia og Si gong á laugardögum

Á þessum helgaropnunum á laugardögum verður m.a. boðið upp á léttar veitingar, en áhersla er lögð á að umsvif og dagskrá verði með sambærilegum hætti milli starfsstöðvanna. ,,Já, og það er lagt upp með að byggja helgarstarfið upp í kringum Bocciakynningu á laugardögum til að byrja með, en öll önnur afþreying verður einnig aðgengileg þeim sem þess óska á meðan opnunin varir. Til viðbótar við Boccia kynningunni mun Sigurður Þorsteinsson þjálfari kynna Si gong æfingar, sem hafa verið að hasla sé völl hér í Kópavogi. Þessar æfingar passa mjög vel fyrir eldra fólk og njóta vinsælda. Tilraunin er gerð til þess að finna út, hvað „ kúnnarnir okkar” vilja,” segir Jón Atli.

 

Sigurður Þorsteinsson þjálfari mun kynna Si gong æfingar á laugardögum, en æfingarnar eru mjög góðar fyrir eldri borgara og hafa notið mikilla vinsælda.

Allir verða eldri borgarar

Kemur svo til greina ef vel gengur og eldri borgara nýta sér þessa opnun að fjölga opnunarhelgum á hverri stöð? ,,Vissulega er það ósk okkar og ég trúi því að bæjarstjórnin verði með okkur í liði. Við í öldungaráðinu göngum fram og segjum: ,,Allir verða eldri borgarar, ef guð lofar, því áttu að vera í liði með okkur. Þú ert að vinna fyrir sjálfan þig.””

Markmið öldungaráðs er að bæta þjónustu við aldraða

Og þú ert formaður öldungaráðs Kópavogs eins og fram hefur komið. Hvert er hlutverk þess? ,,Hlutverk öld- ungaráðs er að vera formlegur vettvangur samráðs og samstarfs við bæjarstjórn og nefndir og ráð Kópavogsbæjar um hagsmuni aldraðra þar sem fjallað er um þjónustu við aldraða, framkvæmd hennar og þróun. Ráðið stuðlar þannig að skoðanaskiptum og miðlun upplýsinga milli aldraðra og bæjaryfirvalda um stefnu og framkvæmd í málefnum sem varða aldraða. Markmiðið með starfi ráðsins er að bæta þjónustu við aldraða í Kópavogi með virkri aðkomu aldraðra að skipulagi og mótun þjónustunnar,” segir hann, en ráðið fjallar ekki um málefni einstaklinga. Það gerir Velferðarsvið Kópavogs. Öldungaráð eru í hverju sveitarfélagi samkvæmt lögum og það vinnur eftir skipunarbréfi eins og önnur ráð og nefndir bæjarins.

Stefán Arnarson, forstöðumaður tómstunda eldri borgara og Jón Atli

67 ára og eldri um 4.500 manns í Kópavogi

Jón Atli segir að í Kópavogi séu 67 ára og eldri um 4.500 manns. Í FEBK (Félag eldri borgara í Kópavogi) eru um 2.200 manns. ,,Þessi hópur er mjög blandaður, fólk úr öllum stigum samfélagsins, hraust og lasið, glatt og aðrir mætt mótlæti, því svoleiðis er lífið í reynd,” segir hann og heldur áfram: Stóra verkefnið okkar er að „kynnast“ þessu fólki, hvað það vill, hvað vantar í þjónustuna og hvernig við getum bætt líf okkar á efri árum. Hvaða úrræði kerfisins er það að nota og hvað vantar. Hvað varðar “Opið hús um helgar“ verkefnið þá vantaði 800 hundruð eldra fólk í bænum til að skrifaði undir beiðni um að hafa félagsmiðstöðvarnar opnar um helgar. Við ætl-um að halda áfram að gera kannanir um vilja hópsins.
Önnur verkefni sem við erum með á prjónunum er að eldra fólk viti af réttindum sínum og geti nýtt sér þau. Við höfum einnig sett okkur í samband við formenn öldungaráða í Kraganum um samvinnu því öll erum við að vinna að því sama. Sá hópur er 9.500 manns í heildina. Þessi samskipti eru einkar skemmtieg og lofa góðu.
Þá er öldungaráð að vinna með 2 ráðuneytum að því að ríkið komi með fjármagn í fjölbreyttari úrræði hvað hreyfingu varðar fyrir eldra fólk. Hlutverk Kópavogs á að vera þróunarsveitarfélag, en verkefnið er fyrir allt landið. Verkefnið er hugsað sem fyrirbyggjandi átak fyrir eldra fólk og eðlilegt að ríkið fjármagni verkefnið. Kópavogsbær fjármagnar og rekur, ásamt íþróttafélögum okkar, Virkni og Vellíðan félag sem er á þessu sviði og er að gera mjög góða hluti fyrir eldri borgara,” segir Jón Atli.

Kópavogur kom mjög vel út úr könnun á meðal eldri fólks

,,Í nýlegri könnun á meðal eldra fólks kom fram að eldra fólk sem flytur á höfuðborgarsvæðið kannar þjónustu sem er í boði hjá sveitarfélögum á svæðinu. Kópavogur kom mjög vel út úr þessari könnun. Velferðarráð og velferðarsvið Kópavogs hafa verið í mikilli vinnu til að bæta þjónustu sína við eldri bæjarbúa enn frekar,” segir hann.

Hver er svona helsta áhersla eldri borgara í Kópavogi í dag? ,,Fyrir okkur í öldungaráði er dásamlegt að vinna fyrir okkar stóra hóp og geta komið að gagni. Við söknum þess að aðrir í ,,bæjarapparatinu” sem vinna með mál eldra fólks óski ekki álits öldungaráðsins þegar við á.”

Gott að eldast í Kópavogi

Og er gott að eldast í Kópavogi? ,,Það er gott að búa í Kópavogi, sagði maðurinn. Verðum við þá ekki að segja að það sé gott að eldast í Kópavogi. Enn elli kerling fer misjafnlega vel eða illa með okkur. Ég á mér þann draum að við gætum haft böll og dansað eins og í gamla daga,” segir Jón Atli, en öldungaráðið hefur gefið út 12 heilræði sem eru til gamans gerð og þar er m.a. að finna:

  • Söfnum ekki veraldlegum hlutum, minningasafnið er miklu verðmætara.
  • Fjölskyldan er æ dýrmætari eftir því sem við eldumst (og þroskumst ).
  • Góð ævi skiptir meira máli en löng ævi.
  • Afi og amma gegna oft mikilvægu hlutverki í lífi barnabarnanna og það eru forréttindi að fá að elska og hlúa að þeim og sjá þau þroskast.
  • Ef eitthvað bjátar á og gangi einhver á þinn hlut er betra að skilja og fyrirgefa en ala á ósættinu.
  • Það sama gildir ef þú þarft að fyrirgefa sjálfum/sjálfri þér.
  • Segðu eitthvað fallegt á hverjum degi við þá sem þér þykir vænt um og helst alla sem þú hittir.
  • Það er gott að gráta, sérstaklega úr hlátri.

Opnunartímar félagsmiðstöðvanna verða frá kl. 13:00-16:00, en viðvera starfsmanns er frá kl. 12:30-16:30.

  • Gullsmári, 10. febrúar, 9. mars. 6. apríl

  • Gjábakki, 17. febrúar, 2. mars. 13. apríl

  • Boðaþing, 24. febrúar, 16. mars, 20. apríl