Ferð um Fjallabak nyrðra 27. og 28. ágúst

 

Lagt var af stað í síðustu innanlandsferð sumarsins kl. 08:30 frá Gjábakka. Leiðsögumaður okkar var einn ferðanefndarmanna, Steini Þorvalds og Baldur Baldvins var fararstjóri. Farþegar að þeim meðtöldum og Einari bílstjóra voru 35 þar eð hótelpöntun okkar í Hótel Vík takmarkaðist við þann fjölda. Rútan sem var hálendisrúta rúmaði alls 40 og reyndist hin besta í alla staði. Vegurinn frá Hraunbúðum, þar sem við borðuðum sveppasúpu, til Landmannalauga var býsna grýttur en þaðan og til Víkur var hann mun betri enda fáfarnari. Það vakti nokkra undrun meðal okkar hversu margir fólksbílar, jeppar og rútur voru í Landmannalaugum og þar af leiðandi fólk. Á að giska voru þar a.m.k. yfir 1000 manns. Við höfðum þarna góða viðdvöl á meðan við snæddum nestið okkar í sól og blíðu. Því miður höfðu tvö okkar hnotið um við að fara út úr rútunni og fengið andlitsmeiðsl. Gert var að þeim til bráðabirgða og síðan notið læknishjálpar í Landmannalaugum. Þess var síðan vel gætt að fólk fengi góðan stuðning við að stíga út úr rútunni. Smádvöl var í Eldgjá í sólskini og þaðan lagt var upp í akstur niður í Skaftártungur. Skaftá var ansi leirug eftir því sem neðar dró enda mun hlaup hafa verið að byrja í henni.

Það var vel þegin hvíld frá hristingi á vegunum að koma í Hótel Vík þar sem við nutum góðrar kvöldmáltíðar og annarra veitinga áður en gengið var til sængur. Eftir morgunverð var lagt af stað í Þakgil. Veðurspáin rættist að hluta því smá úrkoma var þegar þangað var komið. Félagið gerði sitt til að hressa upp á fólk í rigningunni með því að opna nokkrar freyðivínsflöskur og bjóða upp á smá meðlæti í rúmgóðum helli. Við snæddum svo súpu og brauð í Gamla fjósinu undir Eyjafjöllum og síðan stoppað í hressingu á N1 á Hvolsvelli. Þá kom til afbrigða við ferðaáætlun okkar því upplagt var að skoða listaverk Nínu Sæmundardóttur “Afrekshugur” sem var nýbúið að afhjúpa á fallegu opnu svæði í bænum. Þá gerðist Sigrún okkar leiðsögumaður um bæinn og beindi ferð okkar m.a. að æskuheimili sínu. Guðrún tók við leiðsögn er ekið var inn Fljótshlíðina. Þekkti þar hvern bæ og kennileiti. Loks var staðnæmst í Þorsteinslundi þar sem við sungum saman í Hlíðarendakoti, þ.e. Fyrr var oft í koti kátt. Sá söngur var ljúfur en var því miður ekki tekinn upp á myndband.
Loks er að geta afbragðs leiðsagnar Steina Þorvalds í ferðinni þar sem hann m.a. miðlaði okkur af þekkingu úr ferðum sínum og skreytti skemmtilegum sögum. Einar bílstjóri fékk einnig afar gott klapp fyrir sinn góða akstur við oft erfiðar aðstæður. Telja verður þessa ferð hafa heppnast afar vel þrátt fyrir þau meiðsli sem tvö okkur hlutu. Allir mjög ánægðir við heimkomuna.
Helgi Ágústsson
form. ferðanefndar.