Lagt var af stað í síðustu innanlandsferð sumarsins kl. 08:30 frá Gjábakka. Leiðsögumaður okkar var einn ferðanefndarmanna, Steini Þorvalds og Baldur Baldvins var fararstjóri. Farþegar að þeim meðtöldum og Einari bílstjóra voru 35 þar eð hótelpöntun okkar í Hótel Vík takmarkaðist við þann fjölda. Rútan sem var hálendisrúta rúmaði alls 40 og reyndist hin besta í alla staði. Vegurinn frá Hraunbúðum, þar sem við borðuðum sveppasúpu, til Landmannalauga var býsna grýttur en þaðan og til Víkur var hann mun betri enda fáfarnari. Það vakti nokkra undrun meðal okkar hversu margir fólksbílar, jeppar og rútur voru í Landmannalaugum og þar af leiðandi fólk. Á að giska voru þar a.m.k. yfir 1000 manns. Við höfðum þarna góða viðdvöl á meðan við snæddum nestið okkar í sól og blíðu. Því miður höfðu tvö okkar hnotið um við að fara út úr rútunni og fengið andlitsmeiðsl. Gert var að þeim til bráðabirgða og síðan notið læknishjálpar í Landmannalaugum. Þess var síðan vel gætt að fólk fengi góðan stuðning við að stíga út úr rútunni. Smádvöl var í Eldgjá í sólskini og þaðan lagt var upp í akstur niður í Skaftártungur. Skaftá var ansi leirug eftir því sem neðar dró enda mun hlaup hafa verið að byrja í henni.