Saga FEBK
Félag eldri borgara í Kópavogi var stofnað 26. nóvember 1988, en áður hafði farið fram nokkur undirbúningur. Fimmtudaginn 3. nóvember 1988 komu 17 Kópavogsbúar saman í fundarstofu félagsmálastofnunar Kópavogs að Digranesvegi 12 til að undirbúa stofnfundinn. Þessir 17 Kópavogsbúar áttu það allir sameiginlegt að vera komnir á eftirlaunaaldur.
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, fulltrúi í málefnum aldraðra hjá Kópavogsbæ, stýrði þessum fundi, en tilgangur hans var að undirbúa stofnun Félags eldri borgara í Kópavogi. Allir fundarmenn voru sammála um að stofna félagið og voru Andrés Kristjánsson, Guðrún Þór, Ólafur Jónsson, Soffía Jóhannesdóttir og Tryggvi Benediksson valin úr hópi fundarmanna til að vinna að undirbúningi stofnfundar. Þessi hópur vann hratt og vel og var stofnfundur boðaður laugardaginn 26.nóvember 1988 kl. 14:00 í Félagsheimili Kópavogs.
Fundurinn hófst með ræðu, sem Guðrún Þór flutti, og tilnefndi hún Kristján Guðmundsson, bæjarstjóra sem fundarstjóra og Ágústu Björnsdóttir sem fundarritara. Á þessum stofnfundi voru mættir um 140 manns en 114 gerðust stofnfélagar.
Fyrsta stjórn hins nýstofnaða félags var þannig skipuð: Ólafur Jónsson formaður, Guðrún Þór varaformaður, Ágústa Böðvarsdóttir ritari, Árni Örnólfsson gjaldkeri og meðstjórnendur þau Andrés Kristjánsson, Soffía Jóhannsdóttir og Tryggvi Benediktsson.
Á fyrsta stjórnarfundi var samþykkt að félagið gerðist stofnaðili að Landssambandi eldri borgara, sem var í undirbúningi og einnig var samþykkt að leita eftir aðstöðu fyrir félagið í Prestshúsinu.
Hinn 25 febrúar 1989 var haldinn aðalfundur, sem jafnframt var framhaldsstofnfundur og var sama stjórn þar endurkjörin. Á þessum fundi voru auk venjulegra aðalfundarstarfa umræður um Bílatryggingamál, viðhald húsa og lóða, húsnæðismál aldraðra o.fl. og sést á þessu að félagið kom víða við strax í upphafi. Milli stofnfundar og fyrsta aðalfundar voru haldnir fjórir stjórnarfundir og einn félagsfundur og voru tryggingamál til umræðu á þeim fundi. Árgjald til félagsins var ákveðið kr. 1500.
Á stjórnarfund 11. mars 1989 mættu Björn Markússon, umsjónarmaður Prestshússins og Sigurbjörg Sigurðardóttir öldrunarfulltúi til að ræða um afnot félagsins af húsinu, en það var notað af íbúum Vogatunguhverfis til spilamennsku á mánudögum og fimmtudögum. Til þess að rekast ekki á það starf sem fyrir var í húsinu var samið um að félagið fengi þriðjudaga, föstudaga og laugardaga milli kl. 3 og 5 fyrir skrifstofutíma.
Næstu misseri voru stjórnarfundir haldnir í Prestshúsinu, en aðrir fundir í Félagsheimili Kópavogs eða Lyonshúsinu Auðbrekku 25. Á þessu ári kom fyrsta fréttabréf félagsins út og var það ein síða í Fréttabréfi um málefni aldraðra, en Erla Friðriksdóttir, öldrunarfulltrúi var ritstjóri þess. Byggingamál fyrir aldraða voru mikið á dagskrá hjá félaginu á fyrstu árum þess og var m.a. kosin byggingarnefnd, sem átti að sækja um lóðir og athuga með lán o.fl. án þess þó að félagið yrði byggingaraðili, heldur átti að fá verktaka til að sjá um verkið og selja síðan íbúðirnar, en félagið átti að vera einskonar fyrirgreiðslu aðili. Strax á þessu fyrsta starfsári voru kosnar skemmtinefnd og ferðanefnd og tóku þær strax til starfa og hafa slíkar nefndir verið vel virkar allar götur síðan.
Á fyrstu árunum var nokkuð rætt um húsnæðismál félagsins og á aðalfundi 1991 var samþykkt að stofna húsbyggingarsjóð og var stjórninni falið að gera tillögur um samþykktir fyrir sjóðinn og fara með stjórn hans þar til stjórn sjóðsins yrði kosin samkvæmt reglum. Þá var samþykkt að leggja sjóðnum til 500 þúsund krónur úr félagssjóði og eftirleiðis helming félagsgjalda, og var félagsgjald þá hækkað í kr.1700. Í maí var kosin stjórn húsbyggingarsjóðs. Nokkrum dögum fyrir aðalfund 1992 kom bréf frá félagsmálastjóra þar sem óskað var eftir að félagið kæmi með hugmyndir um starfsemi í Fannborg 8, þar sem að koma átti upp aðstöðu fyrir félagsstarf aldraðra og óskað eftir að félagið skipaði fulltrúa í starfshóp um málið.
Á félagsfundi, sem haldinn var 11, júní í Auðbrekku 25 var gerð svohljóðandi samþykkt: „Fundur í félagi eldri borgara í Kópavogi, haldinn 11.júní 1992 að Auðbrekku 25, lýsir ánægju sinni með það starf sem unnið hefur verið við undirbúning að skipulagi og rekstri á þjónustumiðstöð aldraðra að Fannborg 8 og fagnar því að framkvæmdir verða nú hafnar við að innrétta húsnæðið. Fundurinn lýsir yfir vilja sínum til samstarfs við Félagsmálastofnun Kópavogs um stjórn þjónustumiðstöðvarinnar og felur stjórn félagsins að vinna áfram að málinu og tilnefna fulltrúa í samstarfshóp um rekstur þjónustukjarnans ef samningar takast.“ Áður en samþykkt þessi var gerð voru nokkrar umræður um málið og kom fram sá vilji að í þessu húsnæði yrði fullkomin eldhúsaðstaða og matarþjónusta. Á aðalfundi 1993 voru gerðar breytingar á samþykktum félagsins og þá kosin stjórn samkvæmt því þannig að helmingur var kosinn til tveggja ára en hinn helmingurinn til eins árs og eftirleiðis yrði alltaf kosið um helming stjórnaramanna og þá til tveggja ára og á þessum fundi var formaður kosinn í fyrsta sinn til tveggja ára og var það Jóhanna Arnórsdóttir sem þá var kosin en fram til þess hafði Ólafur Jónsson verið formaður. Þá var á þessum sama fundi í fyrsta sinn, kosið tíu manna trúnaðarmannaráð, samkvæmt. nýjum lögum.
Í marsmánuði 1993 er mikið að gerast hjá félaginu, en í þeim mánuði voru haldnir fjórir stjórnarfundir.
Á stjórnarfundi 11.mars leggur húsbygginganefnd fram tillögu um að kaupa eða leigja 260 fermetra húsnæði að Hamraborg 1, fyrstu hæð. Húsnæðið var óinnréttað. Ákveðið að skoða þetta betur. Á stjórnarfundi 18. mars eru húsnæðismálin til umræðu og voru lagðar fram teikningar um innréttingar hússins, en frekari ákvörðun var frestað og á stjórnarfundi 25. mars var svo endanlega ákveðið að hafna tilboðinu í Hamraborg 1.
Í stjórnarfundargerð frá 18. mars er eftirfarandi skráð: Formaður las upp bréf frá samstarfsnefnd um starfsemi þjónustumiðstöðvar aldraðra, sem ætlað er að taki til starfa í maí nk. á neðstu hæð í Fannborg 8. FEBK á tvo fulltrúa í nefndinni þau Ólaf Jónsson og Guðrúnu Vigfúsdóttir. Í bréfinu er því lýst yfir að FEBK fái aðstöðu í félagsmiðstöðinni fyrir þá starfsemi sína, sem henta þykir og rými er fyrir. Tekið er fram að ekki sé reiknað með endurgreiðslu fyrir húsnæðið en samstarf við stjórnendur þjónustumiðstöðvarinnar sé nauðsynlegt. Félaginu er ætlað að skipuleggja ferðir utanlands og innan fyrir þá sem sækja þjónustumiðstöðina. Vænst er þátttöku félagsins í dagskrá og umsjón með opnu húsi og öðrum þáttum í starfsemi þjónustumiðstöðvarinnar.
Öldrunarfulltrúi mætti á stjórnarfund 27. apríl og skýrði frá því að ætlunin væri að FEBK fengi inni í hinni nýju félagsmiðstöð með starfsemi klúbba og skemmtanahald eftir því sem rými og aðstaða leyfði. Þá var spurt um möguleika á skrifstofuaðstöðu fyrir FEBK í Fannborg 8 og taldi öldrunarfulltrúi það ekki útilokað. Hinn 16. maí 1993 var haldinn félagsfundur í nýju félagsheimili, Gjábakka, sem opnað var 11.maí, og síðan þá hafa flestir félagsfundir og samkomur félagsins farið þar fram eða í félagsheimilinu Gullsmára eftir að það var tekið í notkun, en fram að þeim tíma voru fundir og samkomur ýmist í félagsheimili Kópavogs eða að Auðbrekku 25.
Í júlímánuði eða nánar tiltekið 27. júlí 1993 mættu á stjórnarfund, þau Ólafur Jónsson fyrrverandi formaður og Guðrún Vigfúsdóttir og gáfu skýrslu um fund sem þau sátu með Aðalbjörgu Lúthersdóttur öldrunarfulltrúa og Sigurbjörgu Björgvinsdóttur forstjóra félagsheimilisins í Gjábakka. Þar hafði verið rætt um að FEBK gengist fyrir 4 til 5 stuttum ferðum og töldu þau heppilegast að allar slíkar ferðir farnar frá Gjábakka væru á einni hendi. Á stjórnarfundi 2. ágúst kom fram hjá skemmtinefnd að allt sé óljóst um starfsemi félagsins í Gjábakka þar sem ekki sé á hreinu hvort félagið eigi að greiða húsaleigu og hver hún yrði. Fulltrúi í samstarfsnefndinni upplýsti að hann hefði aldrei heyrt talað um leigu.
Þann 9. september var haldinn stjórnarfundur, þar sem Aðalbjörg Lúthersdóttir, öldrunarfulltrúi mætti og ræddi um samstarf í félagsheimilinu Gjábakka og taldi það hafa verið með ágætum. Á þessum sama stjórnarfundi kom upp að nokkrir fundarmenn voru ekki ánægðir með skrifstofuaðstöðuna í Prestshúsinu því fáir kæmu þar þegar opið væri, fólk legði fremur leið sína í Gjábakka og töldu nauðsynlegt að fá skrifstofuaðstöðu í Gjábakka til að félagið einangraðist ekki frá starfinu þar. 15.september er rætt um eldhúsið í Prestshúsinu og kom fram ósk frá Sigurbjörgu Björgvinsdóttur forstöðumanni Gjábakka að eldhúsið yrði rýmt svo að það mætti nýtast fyrir tréskurð á vegum félagsstarfs aldraðra. Samþykkt var að vísa því máli til öldrunarfulltrúans. Það er svo á stjórnarfundi hinn 19. október þar sem rætt var um skrifstofuaðstöðu fyrir FEBK í Gjábakka að öldrunarfulltrúi upplýsir að samið hefði verið um aðstöðu fyrir FEBK í afgreiðslu herbergi hússins.
Það var á þessu hausti 1993 sem undirbúningur að byggingu íbúða fyrir aldraða við Gullsmára hófst og 31.október komu félagsmálastjóri, skipulagstjóri og væntanlegur verktaki á fund í félaginu og kynntu þar fyrirhugaðar framkvæmdir og samþykkti þá fundurinn eftirfarandi tillögu: “ Fundurinn felur stjórn félagsins að fylgjast með undirbúningi að byggingu íbúða fyrir aldraða við Gullsmára í Kópavogsdal og tilnefna fulltrúa í undirbúningsnefnd ef þess verður óskað”. 10.nóvember var haldinn stjórnarfundur þar sem kosinn var fulltrúi félagsins til samstarfs við bæjarráð Kópavogs að skipulagningu framkvæmda við Gullsmára. Í bréfi sem bæjarráð sendi FEBK segir að starfshópi þessum sé ætlað að ganga til samninga við Suðurhlíð hf. um kaup á íbúðum fyrir aldraða og byggingu þjónustumiðstöðvar við Gullsmára.
Þennan vetur og sumarið eftir eru þessi húsnæðismál oft á dagskrá og kom Öldrunarfulltrúi á stjórnarfund 5. apríl 1994 til umræðna um ýmiss öldrunarmál, einkum þó tilhögun og form nýrra bygginga sem bæjarfélagið stendur fyrir við Gullsmára í Kópavogi. Sagði öldrunarfulltrúi að þess væri vænst af FEBK að láta í ljósi óskir og tillögur varðandi þessar framkvæmdir t.d. í hvaða hlutfalli væru óskir um: Blokkaríbúðir, smáhýsi, þjónustuíbúðir, verndaðar þjónustuíbúðir, sambýli o.s.frv. Þann 20. september 1994 kom öldrunarfulltrúi á stjórnarfund og óskaði eftir skipun fulltrúa í nefnd sem yrði á vegum félagsmálstofnunar, til að skipuleggja þjónustustarf í fyrirhugaðri þjónustumiðstöð í Gullsmára.
Það er svo á stjórnarfundi 21.nóvember 1995 að félagsmálastjóri tilkynnir að bæjarstjórn ætli ekki að kosta meira viðhald á prestshúsinu og þar með var ljóst að félagið yrði að leita að öðru skrifstofuhúsnæði og einnig sagði félagsmálastjóri að breyta ætti annari hæð í félagsheimili Kópavogs, en þar hafði félagið haft aðstöðu fyrir félagsvist og dans. Á þessum fundi sagðist formaður hafa leitað eftir húsnæði til kaups og lagði fram tilboð frá Viðari hf. um húsnæði í Gullsmára 9 og var samþykkt að skoða það betur. Einnig var rætt um að finna húsnæði fyrir félagsvist og dans og var bent á húsnæði Sjálfstæðisflokksin að Hamraborg 1, sem mun vera fáanlegt, en engin samþykkt var gerð um það.
Þann 8. desember kom stjórnin saman að Auðbrekku 2, húsi sem bærinn átti og bauð félaginu skristofuaðstöðu þar til bráðabirgða, en rýma þurfti Prestshúsið sem fyrst. Samþykkt var að flytja skrifstofuna í Auðbrekku 2 til bráðabirgða. Í janúar 1996 voru haldnir nokkrir fundir þar sem húsakaup voru til umræðu, en 3. janúar lagði formaður fram formlegt tilboð frá Viðari hf. á 46 fermetra plássi á fyrstu hæð í Gullsmára 9. Samþykkt var að skoða húsnæðið og leita samninga og það var síðan á sameiginlegum fundi stjórnar, trúnaðarmannaráðs og stjórnar húsnæðissjóðs að stjórn félagsins og stjórn húsnæðissjóðs var veitt heimild til að ganga frá samningi um húsakaupin. Það er svo 10. júní 1996 að haldinn er stjórnarfundur í eigin húsnæði og var félagið fyrsti aðilinn sem flutti í Gullsmára 9. Um þetta leyti hófust umræður um væntanlega þjónustumiðstöð í Gullsmára, sem áætlað var að taka í notkun á árinu 1997. Á stjórnarfundi 16.júní 1997 er bókaður vilji stjórnarinnar þess efnis að félagið taki að sér rekstur félagsmiðstöðvarinnar í Gullsmára. Í september eru drög bæjarstjórnar að samningi um reksturinn til umræðu og samþykkt að halda samningaumræðum áfram. Á félagsfundi sem haldinn var 4. október 1997 urðu miklar umræður um samningsdrögin, en samkvæmt þeim átti félagið að taka að sér reksturinn. Ekki voru allir á sama máli og rætt um óðarlagsbreytingar. Fram kom dagskrártillaga um að fresta umræðum og var hún felld með jöfnum atkvæðum 37 gegn 37. Umræðum var síðan heldið áfram og orðalagsbreytingar í samningsdrögum samþykktar og samþykkt að halda samninga umræðum áfram. Einhver misskilningur virðist hafa orðið og félagsmálastjóri fengið rangar upplýsingar því hann skrifaði bréf til stjórnar félagsins þess efnis að þar sem samningsdrögin hefðu verið felld með jöfnum atkvæðum á fundinum 37 gegn 37 yrði ekki af frekari samningum og reksturinn yrði eins og í Gjábakka. Í nóvember 1997 barst ósk frá félagsmálastjóra um tilnefningu um fulltrúa í nefnd til að undirbúa rekstur félagsmiðstöðvarinnar í Gullsmára sem opna skyldi 5.desember og var orðið við því. Svo virðist eftir fundargerðum að eitthvað hafi orðið stirðara í samskiptum milli félagsins og félagsmálastofnunar eftir að Gullsmári var opnaður a.m.k. er lítið bókað þar um, en það er von mín að það sé liðin tíð því stjórn FEBK hefir átt ánægjulega og gagnlega fundi með félagsmálastjóra og forstöðumanni félagsheimilanna.
Á aðalfundi 1998 lætur Jóhanna Arnórsdóttir af formennsku í félaginu og Leópold Jóhannesson var kjörinn formaður félagsins. Á milli aðalfunda 1998 og 1999 eru haldnir nokkrir stjórnarfundir og þar af einn með trúnaðarmannaráði og var þar rætt um daglega starfsemi félagsins þar sem húsnæðismál voru í höfn. Á aðalfundi 1999 er Leópold Jóhannesson endurkjörinn formaður en hann hafði verið mikið frá vegna veikinda árið áður. Sennilega vegna veikinda formanns eru ekki bókaðir nema þrír stjórnarfundir og einn almennur fundur milli aðaðalfunda 1999 og 2000, en á aðalfundinum 2000 tilkynnir formaður, Leópold Jóhannesson að hann geti ekki vegna heilsubrests starfað lengur sem formaður og var þá Karl Gústaf Ásgrímsson kjörinn formaður. Á þessum aðalfundi árið 2000 eru gerðar verulegar breytingar á samþykktum eða lögum félagsins og er þá fellt út að kjósa tíu manna trúnaðarmannaráð og rökin fyrir því að trúnaðarmannaráð hefði ekki verið boðað til fundar í tvö ár, en samkvæmt bókun var síðast fundur ráðsins haldinn í september 1998 og hafa fundir þess sennilega fallið niður vegna veikinda formanns.
Eins og ég sagði hér áður þá var Ólafur Jónsson fyrsti formaður félagsins og var hann formaður í rúm fjögur ár, en hann hætti þegar hann var kosinn formaður Landssambands eldri borgara. Næsti formaður var Jóhanna Arnórsdóttir og var hún formaður í fimm ár. Þriðji formaður var svo Leópold Jóhannesson og var hann formaður í tvö ár. Karl Gústaf Ásgrímsson var sá fjórði í röðinni og var formaður til 3. mars 2007, eða í sjö ár, en þá tók núverandi formaður Kristjana H. Guðmundsdóttir við formennsku félagsins, en hún hafði verið gjaldkeri félagsins 2 ár þar á undan. Strax á fyrsta ári voru kosnar skemmtinefndir og ferðanefndir og hafa þær nefndir verið vel virkar, en að sjálfsögðu hafa orði mannaskipti þar eins og gefur að skilja og hafa margir komið þar við sögu, en skemmtinefndin stóð fyrir skemmtunum, spilakvöldum, bingó, félagsvist og dansi í félagsheimili Kópavogs og að Auðbrekku 25 fyrstu árin, en eftir tilkomu þjónustumiðstöðvanna hafa dansleikir fallið niður að mestu en Opin hús hafa verið í þjónustumiðstöðvunum á vegum nefndarinnar. Síðast liðin sex á hefur sérstök spilanefnd, undir forystu Jóhönnu Arnórsdóttur, fyrrv. formanns, séð um félagsvistina, sem spiluð er í hverri viku allt árið í báðum félagsheimilunum.
Ferðanefnd hefur allar götur frá stofnun félagsins verið vel virk og margir komið þar við sögu og má þar t.d. nefna fyrrv., formann, Leópold Jóhannesson, Boga Þóri Guðjónsson, Þráinn Þorleifsson auk margra annara. Ferðanefndin hefur staðið fyrir ferðum bæði innan lands og utan, löngum og stuttum á hverju ári. Hin síðari ár hefur ferðanefndin aðeins verið með innanlandsferðir á eigin vegum, en verið í samvinnu við ferðaskrifstofur með utanlandsferðir.
Þess má geta að félagið hefur staðið að gerð púttvalla og hafa Bogi Þórir og Karl Helgason, fyrrverandi. ritari verið þar í forystu ásamt fleirum. Á þeim árum sem Jóhanna Arnórsdóttir var formaður gekkst hún fyrir því að koma á sundleikfimi fyrir félagsmenn og aðra aldraða og hefur hún leitt, kennt og stýrt þessu allar götur síðan og er enn að.
Bridge- deildir hafa verið starfandi í báðum félagsheimilunum undanfarin ár og er spilað tvisvar í viku á hvorum stað. Félagsvist er spiluð í báðum félagsheimilunum undir stjórn Jóhönnu Arnórsdóttur. Bingó er spilað í Gullsmára annan hvern föstudag og í Gjábakka annan hvern fimmtudag. Leshópurinn í Gullsmára undir stjórn Stefáns Friðbjarnarsonar kemur saman fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði yfir vetrartímann og kynna þar ýmsir rithöfundar verk sín. Skvetturnar í Gullsmára eru búnar að halda Skvettuböll í Gullsmára í nokkur ár og haf þau verið mjög vinsæl. Gleðigjafarnir í Gullsmára taka lagið undir stjórn Guðmundar Magnússonar annan hvern föstudag og er þar oft fjölmennt. Opið hús er haldið nokkrum sinnum yfir veturinn og að sjálfsögðu félagsfundir. Fréttabréf félagsins hefir komið út nokkrum sinnum á ári frá fyrstu tíð, fyrst sem síða í blaði, sem félagsmálastofnun gaf út, síðan í mörg ár sem sjálfstætt blað, sem sent var félagsmönnum, en nú síðustu árin hefur það verið ein síða í Kópavogspóstinum og var sú breyting gerð til að ná til allra eldri borgara í Kópavogi og hefur það gefist nokkuð vel.
Heiðursfélagar eru fjórir, Ólafur Jónsson, fyrrverandi formaður var gerður að heiðursfélaga á tíu ára afmæli félagsins og hjónin Jóhanna Arnórsdóttir fyrrv.,formaður, maður hennar Hjörtur Kristinn Hjartarson, fyrrverandi formaður skemmtinefndar og Bogi Þórir Guðjónsson voru gerð að heiðursfélögum fyrir mikil og góð störf í þágu félagsins. Að lokum var Karl Gústaf Ásgrímsson fyrrverandi formaður félagsins gerður að heiðursfélaga er hann lét af störfum.
Það má geta þess til gamans að árgjald til félagsins var í fyrstu 1500 krónur, en er núna kr. 2.100 + 200 kr. fyrir styrktarsjóðinn Hjálparhellu. Stofnfélagar voru 114 en í dag eru skráðir yfir 1200 félagsmenn.Yfir 100 manns eru gjaldfrjálsir, því samþykkt var fyrir þrem árum að þeir sem eru 85 ára og eldri greiða ekki félagsgjald, en njóta fullra réttinda. Eins og þið sjáið af því sem hér hefur verið sagt , hefur verið mikið gert og margir komið að starfinu, þó ekki sé nærri allt upp talið. Til að efla og auka starf félagsins þurfum við að fá sem flesta í lið með okkur.
Í mars 2008 gerði stjórn FEBK mikið átak til að vekja athygli Kópavogsbúa á starfi félagsins. Send voru út 3080 bréf og eru þau þegar farin að skila árangri. Margir nýir félagar hafa skráð sig í félagið og fögnum við hverjum þeim sem bætist við. Til þess að efla og auka starf félagsins þurfum við að fá fleiri til starfa. Komið og takið þátt í því að efla og styrkja félagið okkar FEBK.
Tekið saman af Karli Gústaf Ásgrímssyni fyrrverandi formanni FEBK., en hann andaðist 1. júlí 2007.
Uppfært 15. apríl 2008 af núverandi formanni FEBK Kristjönu H. Guðmundsdóttur.
25.ára afmælishátið í Salnum 22.nóvember 2013
Ræða Formanns FEBK, Baldurs Þórs Baldvinssonar.
Eldri borgarar í Kópavogi, til hamingju með daginn
Ágætu hátíðargestir, fyrir hönd Félags eldri borgara í Kópavogi býð ég ykkur öllsömul hjartanlega velkomin til þessa 25. ára afmælisfagnaðar.
25 ár er vissulega ekki hár aldur í þeim skilningi, en auðvitað kjörið tilefni til að líta um öxl, sjá hvað vel hefur verið gert og hvað betur hefði mátt fara. Og jafnframt er vissulega bæði hollt og skynsamlegt að horfa fram á veginn, íhuga hvert stefnir.Það varóneitanlega mikið gæfuspor fyrireldri íbúa Kópavogsbæjar þegarlítill hópur eldra fólks kom saman með það markmið í huga að stofna hagsmunafélag.
Hver og einn þessara einstaklinga sem þarna komu saman vissi að eigin lífshamingju verður hver og einn að byggja upp að eigin frumkvæði og í samstarfi við sína samborgara og það var einmitt markmiðið, að gera efri árin ánægjulegri, reyna að skapa einhverja lífsfyllingu með samtakamætti. Eftir nokkurn aðdraganda seinni hluta árs 1988 var það síðan í byrjun nóvember það ár sem 17 manns úr hópi eldri borgara, komu saman til að undirbúa stofnun félags.
Það var strax mikill áhugi og hugur hjá hópnum og í lok nóvember sama ár var félagið,“Félag eldri borgara í Kópavogi,, síðan formlega stofnað og það voru samtals 114 einstaklingar sem gerðust stofnfélagar.
Félag eldri borgara í Kópavogi varð fljótlega afar virkur félagsskapur í bæjarlífi Kópavogs. Félagið setti strax á oddinn umbætur á efnahagslegri afkomu, öryggi og umhverfi aldraðra. Úrbætur í húsnæðismálum og stuðla að eflingu félags- og tómstundaaðstöðu fyrir eldri borgara í Kópavogi. Það er vissulega, á margan hátt ánægjulegt að líta um öxl. Í upphafi vantaði strax aðstöðu fyrir félagið, vantaði húsnæði fyrir skrifstofu, en með góðu samkomulagi og velvild leysti Kópavogsbær það mál fljótt og vel, en að sjálfsögðu vildi hið nýja félag eignast eigið húsnæði og því var húsbyggingasjóður fljótlega stofnaður með það markmið að stuðla að því að félagið eignaðist eigið húsnæði. Þessi áform gengu eftir og er skrifstofa Félags eldri borgara í Kópavogi nú í eigin húsnæði, það er 46 m2 rými í húsinu nr. 9. við Gullsmárann.
Félagsmálin, skemmtanir og tómstundarstörf eru stórir hlekkir í starfsemi félagsins, það er jú óumdeilanlegt að það að eldast og hætta fastri vinnu hefur miklar breytingar í för með sér, frítíminn er miklu meiri en við höfum ef til vill áhuga á, og Það getur svo auðveldlega skapast óæskilegt tómarúm sem alls ekki allir eiga auðvelt með að höndla. Það er ríkjandi skoðun okkar þjóðfélags, og því er ég auðvitað sammála að æskilegt sé að eldri borgarar búi á eigin heimilum svo lengi sem heilsa leyfir, en það getur auðvitað leitt til þess að margir lenda í því að búa einir, jafnvel um margra ára skeið.
Ég held að það sé ekkert tekið of djúpt í árina, en félagsstarf fyrir eldri borgara hér í Kópavogi er nokkuð öflugt.Bæjarfélagið hefur gert vel við eldri borgara. Kópavogur hefur byggt hér þrjár þjónustumiðstöðvar,félagsheimili fyrir eldri borgara.Mönnum hættir til, eins og stundum vill verða með það sem gott er, að gleyma þessu framlagi bæjarins til starfsemi eldri borgara.Kópavogsbær á og greiðir allan rekstrarkostnað þessara félagsmiðstöðva, en eldra fólk og Félag eldri borgara í Kópavogi í góðu samstarfi við fulltrúa bæjarins standa fyrir hinum ýmsu uppákomum, fjölbreyttu og öflugu félagsstarfi innan veggja þessara félagsheimila.
Félagsheimili fyrir eldri borgara eru svo sannarlega kjörstaðir til að hittast, til að tala saman, gleðjast saman, dansa, stunda leikfimi, taka í spil,prjóna, mála myndir, postulín, glerlist, silfursmíði, tréútskurður, allskonar handavinnaog svo margt, margt fleira. Það er staðreynd að í starfi félagsmiðstöðva fyrir eldri borgara uppgötva fjölmargir listamanninn í sjáfum sér. Það er jú auðvitað eitt helsta markmið Félags eldri borgara í Kópavogi að stuðla að því gera efri árin, sem við köllum svo, ánægjulegri, gera allt sem mögulegt er til að koma í veg fyrir einsemd og einangrun sem vissulega er til staðar hér mitt í þéttbýlinu.
Félög eldri borgara eru eins og allir vita hagsmunafélög. Þetta eru hagsmunafélög þeirra þjóðfélagsþegna sem eru hættir föstum störfum í þjóðfélaginu. Þessi hópur á sér engan málsvara í stéttar eða starfsmannafélögum, því það er jú því miður raunveruleikinn að þegar fólk kemst á eftirlaunaaldur er það svo, að vinnumarkaðurinn afskrifarþað fólk,Það er barasta eins og það sé ekki lengur til. Það er í raun ótrúlegt að menn skuli ekki íhuga alla þá þekkingu og reynslu sem þar er kastað á glæ.
Til að efla hagsmunagæslu og til að gæta hagsmuna eldri borgara gagnvart stjórnvöldum í landinu, stóðu fyrir rúmum aldarfjórðung einstök félög eldri borgara, víða að um landið að stofnun heildarsamtaka. Landsambandi eldri borgara. Að sjálfsögðu var hið unga félag eldri borgara í Kópavogi fullgildur aðili í þeim félagsskap. Kom þar að borði með öllum sínum þunga. Það er auðvitað ótrúlegt að hugsa til þess, en eldri borgarar hafa enga aðkomu að umfjöllun um sín kjör, eða yfirleitt þróun kjaramála og annarra landsmála. Krafa eldri borgara hlýtur að vera sú að Landsamband eldri borgara verði viðurkennt sem málsvari okkar á þeim vettvangi.
Að beita sér fyrir og stuðla að úrbótum í húsnæðismálum fyrir aldraðra, án þess þó að standa sjálft fyrir íbúðarbyggingum var eitt af helstu stefnumálum við stofnun Félags eldri borgara í Kópavogi. Það er hér í Kópavogi mikill og almennur áhugi hjá eldra fólki fyrir því að eignast eigin íbúð eða tryggja sér leiguíbúð.
Þó svo að bæjarfélagið og einstakir framkvæmdaraðilar hafi undanfarna þrjá áratugi viljað svara eftirspurn eldri borgara eftir nýjum og hentugum íbúðum þá er það staðreynd að biðlistar eftir slíkum íbúðum minnka ekki.
Í þessum efnum þarf verulega innspýtingu og vonandi getur í framtíðinni Félag eldri borgara í Kópavogi komið eitthvað að þeim málum.
Í dag fögnum við 25 ára afmæli félagsins. Ég vill nota tækifærið til að þakka öllum þeim fjölmörgu sem hafa komið að og styrkt starfsemi félagsins í gegnum árin og gert það jafn öflugt og glæsilegt og raun ber vitni. Hér hafa margar góðar hendur unnið mikið og fórnfúst starf. Einnig þakka ég sérstaklega bæjaryfirvöldum fyrir þeirra góða stuðning í gegnum árin. Án stuðnings bæjarins værum við ekki með jafn glæsilegt félag í dag eins og raun ber vitni. Það verður hins vegar alltaf á ábyrgð félagsmannanna sjálfra að tryggja að framhald verði hér á með virkri þátttöku í starfsemi félagsins, og þar er framtíðin björt því ég fullyrði að hvergi á landinu er til betri og skemmtilegri hópur en sú glæsilega sveit sem við köllum eldri borgara í Kópavogi í dag.