Félagsmiðstöðvar eldri borgara í Kópavogi verði opnar um helgar!

Ágæti eldri borgari í Kópavogi

Fyrir u.þ.b. ári síðan, á vordögum 2022, sendi formaður eldri borgara í Kópavogi bréf fyrir hönd félags þeirra, FEBK, til bæjarstjórans í Kópavogi. Innihald bréfsins var beiðni til bæjaryfirvalda um að hafa félagsmiðstöðvar eldri borgara í bænum opnar um helgar sem aðra daga vikunnar.

Reynslan hefur sýnt, að fjölmargir nýta sér aðstöðuna í félagsmiðstöðvunum til þess að hittast og njóta samvistar við aðra og hafa á þann hátt aukið lífsgæði sín til muna. Lokun um helgar hefur hins vegar verið mörgum þungbær og kvíðaefni, einkum þeim sem búa einir. Einsemd og einangrun eru þvi miður oft förunautar þeirra um helgar. Undirtektir við ofangreindu bréfi voru jákvæðar, en að öðru leyti hefur ekkert bólað á raunhæfum viðbrögðum. Félagsmiðstöðvarnar eru lokaðar sem fyrr um helgar, þrátt fyrir að reynt hafi verið að fylgja málinu eftir.

Á heimasíðu FEBK, á fésbókarsíðu félagsins og í Kópavogspósti var fyrir stuttu ofangreint málefni kynnt og boðað til undirskriftasöfnunar til þess að reyna að knýja á um aðgerðir. Nú er komið að því að opnað hefur verið rafrænt fyrir þessa söfnun. Aðeins þarf að smella á slóðina hér fyrir neðan, velja “setja nafn mitt á þennan lista”, skrá sig inn með rafrænum skilríkjum (á sama hátt og inn á heimabanka) og skrá nafn sitt. Einnig er hægt að fara inn á heimasíðu FEBK og fésbókarsíðu félagsins, þar sem finna má sama aðgang að rafrænum undirskriftalista.

Eru allir eindregið hvattir til þess að sýna samstöðu með öðrum eldri borgurum í Kópavogi og fylkja liði til þess að koma þessu brýna málefni í höfn. Hver undirskrift skiptir máli og nauðsynlegt er að fá þær sem allra flestar á borð bæjarfulltrúa! Við náum engum árangri, ef við fylgjum málefninu ekki eftir! Sýnum með undirskrift okkar, að við tilheyrum kynslóð sem lætur verkin tala en situr ekki hjá með hendur í skauti!

Þeim, sem af einhverjum ástæðum geta ekki nýtt sér rafræna leið til undirskriftar, er bent á undirskriftalista á pappír, sem munu liggja frammi í félagsmiðstöðvum eldri borgara. Athugið, að skrifa einungis undir rafrænt eða á pappír.

Fyrir hönd stjórnar FEBK

Baldur Þór Baldvinsson

Smelltu hér til að skrifa undir